Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra klæddist 20. aldar þjóðbúningi við þingsetningu Alþingis sem fram fór á þriðjudaginn var. Þorgerður fékk búninginn að gjöf frá foreldrum sínum þegar hún var kjörin á þing árið 2000.
„Búningurinn er frá ömmu Þorgerði en hún lést 34 ára árið 1940,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við Smartland. Þorgerður Jósepsdóttir var föðuramma Þorgerðar Katrínar og var fædd 1905 og ættuð úr Keflavík. Faðir Þorgerðar Katrínar, Gunnar Eyjólfsson heitinn, sem var landsþekktur leikari geymdi búninginn vel þangað til Þorgerður Katrín eignaðist hann.
Þorgerður Katrín segir að henni þyki ofur vænt um búninginn en Þorgerður amma hennar átti allt sem til þurfti; silfrið, ermahnappa, eyrnalokka og sylgju.
„Pabbi varðveitti búninginn og það þurfti að gera þetta upp,“ segir Þorgerður. Búningurinn var saumaður upp aftur en pils Þorgerðar ömmu var ónýtt og því þurfti að sauma nýtt pils svo búningurinn væri nothæfur.
„Mér þykir undur vænt um hann,“ segir Þorgerður Katrín um búninginn.
Hún vígði búninginn árið 2000 þegar Kristni á Íslandi fagnaði 1000 ára afmæli.
„Ég er þakklát mömmu og pabba að hafa gætt hans svona vel. Ég er mjög stolt af þessum upphlut,“ segir Þorgerður Katrín og bætir því við að hún sé ánægð hvað upphluturinn sé vinsæll þessa dagana en eins og mátti sjá á þingsetningu Alþingis mættu nokkrar þingkonur í þjóðbúningum.
Árið 2004 rataði þjóðbúningur Þorgerðar Katrínar í fréttir þegar hún var í bol innanundir upphlutnum. Bolurinn var hannaður af Rögnu Fróðadóttur hönnuði en íhaldssamir lýstu yfir óánægju sinni með þennan gjörning. Svona út frá smartheitum þá hefur upprunalega þjóðbúningaskyrtan vinninginn enda töluvert meira elegant en bolurinn - með fullri virðingu fyrir hönnun Rögnu Fróðadóttur.