Vorið er augljóslega handan við hornið hjá Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra sem klæddist þunnri blómablússu frá franska merkinu Isabel Marant Étoile á ríkisstjórafundi á dögunum. Blússunni hneppti hún alveg upp að hálsi og klæddist svörtum uppháum dragtarbuxum við.
Þau sem hrifin eru af skyrtunni verða þó fyrir vonbrigðum en hún var keypt fyrir nokkrum árstíðum síðan og er ekki lengur til hjá Isabel Marant Étoile. Hins vegar er þetta klassísk flík frá merkinu sem kemur í mismunandi mynstri á hverju ári. Isabel Marant er þekkt fyrir töffaralegan og frjálsan bóhemfatnað.
Flíkina hennar Kristrúnar má versla á endursölusíðunum Isabel Marant Vintage og Vestiaire Collective en þar er ein skyrta til í stærðinni 36/S og kostar rúmar 11 þúsund krónur. Skyrtan er úr 100% viskói.
Isabel Marant er einn þekktasti fatahönnuður Frakklands og er listrænn stjórnandi Isabel Marant og Isabel Marant Étoile. Étoile er svokallað undirmerki Isabel Marant og flíkurnar úr því merki eru ódýrari en úr aðallínu Isabel Marant.
Étoile fékkst á sínum tíma í versluninni Geysi á Skólavörðustíg og eru margir sem sakna merkisins sem hætti að fást eftir að verslunin lokaði. Aðdáendur geta þó glaðst yfir þeim fréttum að innan skamms mun merkið fást í verslun Mathildu í Kringlunni.