Söngkonan Dua Lipa er andlit herferðar nýrrar leðurtösku, Chanel 25, frá franska hátískuhúsinu Chanel. Töskurnar frá Chanel hafa í áratugi þótt mjög klassískar og eru draumaeign margra. Nýja taskan gefur þeim fyrri ekkert eftir í fegurð, praktík og klassík.
Tveir stórir hliðarvasar einkenna töskuna en einnig er keðjan og stungna leðrið til staðar. Taskan kemur í þremur mismunandi stærðum og er hönnuð fyrir konur á ferðinni. Hún er praktísk, létt og falleg.
„Ég er heilluð af töskunni. Hún er fullkomin fyrir mig sem er alltaf á ferðinni og vill helst hafa allt meðferðis. Vasarnir geyma mína uppáhaldshluti en svo er líka pláss fyrir bækur, sólgleraugu, minnisbók og kristallana mína. Þetta er hin fullkomna hversdagstaska,“ segir Lipa í fréttatilkynningu.