Sigurður Bragi Guðmundsson og Ísak Guðjónsson á Ford Focus WRC stóðu uppi sem sigurvegarar í Pirelli alþjóðlega rallinu sem lauk í dag við Reykjavíkurhöfn. Allt þar til í morgun höfðu bræðurnir Rúnar og Baldur Jónssynir á Subaru Legacy forystuna en þeir misstu hana þegar gírkassinn í bílnum bilaði. Urðu þeir að hlífa bílnum til að eiga möguleika á öðru sætinu sem tryggði þeim Íslandsmeistaratitilinn í rallakstri þótt einni umferð sé ólokið.
Í þriðja stæti urðu Jóhannes V. Gunnarsson og Witek Bogdanski á Mitsubishi Lancer Evo 5 en þeir voru 23 og hálfa mínútu lengur að aka rallið en þeir bræður þar sem þeir óku meirihluta keppninnar með laskaða heddpakkningu.
Í flokki nýliða sigruðu Hilmar B. Þráinnsson og Jóhannes Æ. Arnarsson á Toyota Corolla. Í jeppaflokki náði Alan Paramore á Land Rover Defender forystu og þar með sigrinum á síðustu leið keppninnar um Djúpavatn eftir að sprakk á Land Rover Discovery sem Rob Hartford ók, og kom hann á felgunni einni í mark.
Þetta var 25. alþjóðlega rallið og þótti það takast með ágætum enda blíðskaparveður um helgina. Hafa bresku jeppamennirnir nú þegar skráð sig óformlega í næsta alþjóðlega rall sem fram fer að ári og munu þeir mæta á enn betri Land Roverum.