Yfirhönnuður Red Bull liðsins í Formúlu 1, Adrian Newey, yfirgefur kappakstursliðið í kjölfar ásakana starfsmanns á hendur Christian Horner, liðstjóra Red Bull.
Newey er talinn besti bílasmiður í sögu íþróttarinnar og hefur verið orðaður við Ferrari og Aston Martin en flest toppliðin eru talin hafa áhuga á Newey. Red Bull hafa sigrað keppni ökuþóra og bílasmiða undanfarin tvö tímabil og leiða heimsmeistaramótið með nokkrum yfirburðum á þessu tímabili.
Kvenkyns starfsmaður Red Bull ásakaði Horner um óviðeigandi og stjórnandi hegðun en liðstjórinn var hreinsaður af ásökunum í innri rannsókn liðsins. Starfsmanninum var vikið frá störfum tímabundið og síðan þá hefur mikil valdabarátta átt sér stað innan liðsins.
Christian Horner og helsti ráðgjafi liðsins, Helmut Marko, hafa eldað grátt silfur og talið er að heimsmeistarinn Max Verstappen íhugi stöðu sína innan liðsins en hann er hliðhollur Marko í ágreiningnum.