Heimskulegasta augnablikið á ferlinum

Toto Wolff og Lewis Hamilton á góðri stundu.
Toto Wolff og Lewis Hamilton á góðri stundu. AFP

Toto Wolff, liðstjóri Mercedes liðsins í Formúlu 1 viðurkennir að illa tímasett skilaboð hans til ökumannsins George Russell hefðu getað klúðrað öllu fyrir liðinu í austurríska kappakstrinum í gær.

Russell var þriðji í röðinni þegar forystusauðirnir Max Verstappen og Lando Norris lentu í árekstri og sprengdu báðir dekk. Í æsingnum yfir þessu óvænta atviki sem fleytti Russell í fyrsta sætið kallaði Wolff í talstöðina „við getum unnið!“

„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef gert á mínum tólf árum hjá Mercedes. Ég má ekki tala við ökumenn þegar þeir eru á miklum hraða í beygjum eða að bremsa. Og ég kíkti ekki á GPS-kerfið heldur, ég sá þá (Verstappen og Norris) rekast á og ýtti á takkann og kallaði í talstöðina.“

George Russell hélt bílnum á brautinni þrátt fyrir lætin í …
George Russell hélt bílnum á brautinni þrátt fyrir lætin í Wolff. AFP/Mark Thompson

Russell bað Wolff um að láta sig í friði í talstöðinni, með hjálp blótsyrða, en það þykir ekki skynsamlegt að öskra óvænt í eyrað á ökumanni á 200 km hraða. Sem betur fer fyrir Wolff og Mercedes fipaðist ökumaðurinn ekki og varð fyrstur í mark.

„Hann öskraði bara í eyrað á mér, ég keyrði næstum því út af þegar það gerðist.“ Sagði Russell eftir keppnina. „Þetta sýnir ástríðuna í liðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert