Sölvi Geir Ottesen, knattspyrnumaður úr Víkingi, fór í gær til Noregs þar sem hann verður til reynslu í eina viku hjá úrvalsdeildarliði Brann. Sölvi er 19 ára gamall og vakti mikla athygli með Víkingum í 1. deildinni í sumar en hann er hávaxinn og sterkur varnarmaður. Brann er að leita að hægri bakverði, auk þess sem frekari endurnýjun í varnarlínu liðsins er yfirvofandi á næstunni. Félagið samdi í haust við Ólaf Örn Bjarnason frá Grindavík og hefur oft verið með íslenska leikmenn í sínum röðum.
Arnór Smárason úr ÍA er á leið til Heerenveen í Hollandi þar sem hann mun dvelja fram á sumar. Arnór er 15 ára gamall framherji og fór á dögunum til félagsins til þess að skoða aðstæður og leist vel á allar aðstæður hjá klúbbnum.