Stjarnan á toppinn með sigri á Breiðabliki

Ashley Bares hefur farið á kostum í síðari hálfleik á …
Ashley Bares hefur farið á kostum í síðari hálfleik á móti Breiðabliki. mbl.is/Ómar

Stjarnan komst í kvöld á toppinn í Pepsí-deild kvenna í knattspyrnu. Stjarnan burstaði Breiðablik 4:0 í Kópavogi og komst upp fyrir Val sem tapaði í Vestmannaeyjum fyrr í kvöld 0:1. Þá sigraði Fylkir í Grindavík 3:1. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Úrslit kvöldsins:

Breiðablik - Stjarnan 0:4

Grindavík - Fylkir: 1:3

90. mín: Leikjunum er lokið. Stjarnan vann stórsigur á Breiðabliki 4:0 og komst þar með á toppinn. Fylkir er að spila vel þessa dagana og vann Grindavík 3:1 á útivelli. 

80. mín: Mark! staðan er 4:0 fyrir Stjörnuna. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skoraði fjórða markið úr vítaspyrnu sem Inga Birna Friðjónsdóttir fékk. 

71. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir Fylki. Laufey Björnsdóttir fyrirliði Fylkis er búin að bæta við öðru marki sínu í Grindavík og þriðja marki Fylkis.  Anna Björg Björnsdóttir lagði markið upp og staða Fylkis er orðin vænleg. 

58. mín: Mark! Staðan er 3:0 fyrir Stjörnuna. Ashley Bares halda einfaldlega engin bönd og hún er búin að skora þrennu á sex mínútna kafla. Ótrúleg tíðindi. Þriðja markið skoraði hún með góðu skoti frá vítateigslínu. 

56. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Stjörnuna. Garðbæingar ganga á lagið í Kópavoginum enda farnar að finna lyktina af toppsætinu. Aftur var það Ashley Bares sem skoraði. Að þessu sinni með skoti úr miðjum teignum eftir hornspyrnu. 

52. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Stjörnuna í Kópavoginum. Ashley Bares skoraði af stuttu færi á 52. mínútu eftir undirbúning Ingu Birnu Friðjónsdóttur.

45. mín: Staðan er 0:0 hjá Breiðabliki og Stjörnunni. Fyrri hálfleik er lokið á Kópavogsvellinum og þar er markalaust. Fanndís Friðriksdóttir slapp ein inn fyrir vörn Stjörnunnar á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks en skaut yfir markið. Heilt yfir hefur leikurinn verið frekar daufur hingað til en Stjarnan getur með sigri komist á toppinn þar sem Valur tapaði í Eyjum. 

30. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Fylki. Fjörið heldur áfram í Grindavík. Anna Björg Björnsdóttir er búin að koma Fylki yfir með þrumuskoti úr vítateignum. Árbæingar eru því búnar að skora tvívegis á þriggja mínútna kafla. 

27. mín: Mark! Staðan er 1:1 í Grindavík. Laufey Björnsdóttir jafnaði fyrir Fylki með fallegu marki beint úr aukaspyrnu. 

17. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Grindavík á móti Fylki.  Grindavík náði góðri sókn sem endaði með því að Dernelle L Mascall skoraði með þrumuskoti eftir undirbúning Shaneku Gordon á 17. mínútu. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar eru erfiðar en mjög hvasst er í Grindavík. Fylkir leikur með vindinn í bakið í fyrri hálfleik. 

Fanndís Friðriksdóttir úr Breiðabliki er einn öflugasti leikmaður deildarinnar.
Fanndís Friðriksdóttir úr Breiðabliki er einn öflugasti leikmaður deildarinnar. mbl.is/Ómar
Laufey Björnsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu fyrir Fylki í Grindavík.
Laufey Björnsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnu fyrir Fylki í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert