Markadrottningin snýr aftur

Ashley Bares í leik með Stjörnunni.
Ashley Bares í leik með Stjörnunni. mbl.is

Markadrottning Íslandsmótsins í knattspyrnu 2011, Ashley Bares frá Bandaríkjunum, mun snúa aftur til Íslands í mars og leika með Stjörnunni í Garðabæ. Bares lék í fyrsta skipti á Íslandi á síðustu leiktíð og átti stóran þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli Stjörnunnar í meistaraflokki í knattspyrnu en alls skoraði hún 21 mark í Pepsí-deildinni.

„Ashley gaf mjög sterkt til kynna fyrir lok síðasta keppnistímabils að hún hefði áhuga á að koma aftur, enda mjög ánægð með félagið, liðsfélagana og þjálfarana,“ sagði Einar Páll Tamimi, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Stjörnunni, í samtali við netmiðilinn Fótbolta.net sem greindi frá málinu í gærkvöldi.

Einar sagði jafnframt að Bares hafði dvalið í Bandaríkjunum frá því að Íslandsmótinu lauk og yrði þar næstu mánuðina. „Hún hefur eytt haustinu í fríi með fjölskyldu og vinum í Wisconsin en kemur aftur til Stjörnunnar í marsmánuði,“ sagði Einar og lýsti ánægju sinni með niðurstöðuna.

„Við erum að sjálfsögðu gríðarlega sátt við endurkomu hennar, enda leitun að öðrum eins markaskorara í íslensku deildinni og jafnvel víðar,“ sagði Einar ennfremur í framangreindu viðtali.

Íslandsmeistararnir tefla því væntanlega fram afar öflugu liði í titilvörn sinni næsta sumar en síðsumars endurheimti félagið markvörð sinn, Söndru Sigurðardóttur úr atvinnumennsku í Svíþjóð. Á síðustu leiktíð vann liðið alla leiki sína nema einn og vann fimmtán í röð sem er met í efstu deild kvenna.

kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka