„Ég vildi frá meira, ég vildi þrjú stig,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, eftir jafnteflisleik við Fylki á Fylkisvelli í úrvalsdeild karla, Pepsi-deildinni í kvöld.
„Þegar við vorum komnir með forystu í leiknum þá var engin ástæða til þess að fá sig jöfnunarmarkið. Fylkismenn voru að vísu meira með boltann en þeir voru hættulitlir,“ sagði Ólafur sem var ósáttur við hversu mikið hans menn bökkuðu eftir að hafa komist yfir á 55. mínútu.
Jöfnunarmark Fylkis kom eftir mistök markvarðar Breiðabliks, Sigmars Inga Sigurðarsonar, sem tókst ekki að halda boltanum eftir langskot. Boltinn hrökk af Sigmari og út í teiginn þar sem Jóhann Þórhallsson þakkaði fyrir sig með því að jafna metin 10 mínútum fyrir leikslok.
„Það er óhætt að segja að aðdragandi marksins hafi verið klafalegur. Sigmar átti að slá boltann frá markinu eða aftur fyrir en ekki grípa hann. En Sigmar veit það best sjálfur og það þarf ekkert að nudda honum upp úr því," sagði Ólafur.