Knattspyrnumaðurinn Kristján Páll Jónsson er genginn í raðir Fylkis og hefur skrifað undir þriggja ára samning við Árbæjarliðið að því er fram kemur á vef stuðningsmanna félagsins, fylkismenn.is.
Kristján Páll kemur til Fylkis frá Leikni en hann hefur leikið með Breiðholtsliðinu allan sinn feril. Kristján, sem er 24 ára gamall kantmaður, lék alla 22 leiki Leiknismanna í 1. deildinni í sumar og skoraði í þeim 3 mörk.
Kristján er annar leikmaðurinn sem Fylkismenn fá til liðs við fyrir átökin næsta sumar en varnarmaðurinn Sverrir Garðarsson skrifaði undir samning við liðið um síðustu helgi en hann lék með Haukum í sumar. Þeir hafa hins vegar misst einn sinn besta leikmann en Ingimundur Níels Óskarsson fór til Íslandsmeistara FH.