Christiansen: Kem ekki aftur til ÍBV

Rasmus Christiansen í leik með ÍBV.
Rasmus Christiansen í leik með ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rasmus Christiansen, danski varnarmaðurinn sem var fyrirliði ÍBV á síðasta keppnistímabili í fótboltanum, segir að það sé öruggt mál að hann komi ekki aftur til Eyjamanna á næsta ári.

Christiansen, sem er 23 ára gamall, hefur spilað með ÍBV undanfarin þrjú ár og aðeins misst af einu leik frá því hann kom til Vestmannaeyja. Hann hefur verið einn besti varnarmaður deildarinnar á þessum tíma.

„Ég framlengi ekki samninginn við ÍBV. Í staðinn er umboðsmaðurinn minn að leita að liði fyrir mig á Norðurlöndunum. Best væri að vera í Danmörku, þá er ég nær vinum og fjölskyldu, en ég er opinn fyrir flestu. Við sjáum til hvað kemur upp en á þessum tímapunkti vil ég prófa eitthvað annað en Ísland. Það er eðlilegt skref á mínum ferli," sagði Christiansen við bold.dk í dag.

Hann æfir þessa dagana með sínu gamla félagi, Lyngby, en segir að ekki standi til að semja þar. Christiansen á að baki 36 leiki með yngri landsliðum Dana, þar af einn með 21-árs landsliðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka