Liðsauki til Stjörnunnar og Þórs/KA

Kaitlyn Savage, lengst til hægri, getur ekki spilað með Þór/KA …
Kaitlyn Savage, lengst til hægri, getur ekki spilað með Þór/KA vegna meiðsla. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar Þórs/KA og bikarmeistarar Stjörnunnar hafa náð sér í liðsauka á síðustu stundu fyrir Íslandsmótið en fyrsta umferðin í Pepsi-deild kvenna fer fram í kvöld.

Stjarnan hefur fengið til sín Megan Manthey, 24 ára bandarískan framherja sem var síðast í Frakklandi með Saint-Étienne og spilaði þar fram í janúar. Áður lék hún með Seattle Sounders í Bandaríkjunum og með danska toppliðinu Fortuna Hjörring í þrjú ár.

Manthey er með keppnisleyfi fyrir leik Stjörnunnar gegn ÍBV sem hefst í Garðabænum klukkan 18 í kvöld en tekur þó ekki þátt í leiknum vegna meiðsla.

Þór/KA hefur fengið til sín bandaríska markvörðinn Victoria Alonzo. Hún er 22 ára og spilaði síðast í Finnlandi við Kuopio en áður m.a. með New England Mutiny í Bandaríkjunum. Alonzo er ekki lögleg fyrir leik Þórs/KA gegn FH í Boganum í kvöld en er með keppnisleyfi frá og með morgundeginum. Hún kemur í staðinn fyrir Kaitlyn Savage sem var komin til Íslandsmeistaranna en meiddist illa í Meistarakeppni KSÍ gegn Stjörnunni í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert