Jovan Zdravevski mun ekki leika með bikarmeistaraliði Stjörnunnar á næstu leiktíð í Dominos-deildinni í körfuknattleik en hann er á leið til Svíþjóðar ásamt kærustu sinni, Láru Flosadóttur, sem leikið hefur með Stjörnunni í 1. deild kvenna.
Þetta kemur fram á netmiðlinum Karfan.is en þar segir í yfirlýsingu frá Jovan að ákvörðunin sé afar erfið en að hann hafi nú lokið námi og vilji reyna sig við nýja áskorun.
Jovan hefur verið mikilvægur hlekkur í Stjörnuliðinu, sem varð í 2. sæti Íslandsmótsins, og hann skoraði 12,8 stig að meðaltali á síðustu leiktíð, tók 4,3 fráköst og gaf 2,2 stoðsendingar. Lára skoraði 7 stig og tók 3,3 fráköst að meðaltali í leik fyrir Stjörnukonur á síðustu leiktíð.