Varaformaður FH brjálaður við fréttamenn

Lúðvík Arnarson, varaformaður knattspyrnudeildar FH lét heldur ófriðlega fyrir framan fréttamenn þegar beðið var eftir þjálfurum í viðtöl eftir leik FH og Vals. Hitinn var gríðarlegur í undirgöngunum eftir leikinn sem endaði 3:3 þar sem FH jafnaði metin í uppbótartíma.

Það sauð allt uppúr í Kaplakrika eftir leikinn. Davíð Þór Viðarsson kvartaði mikið í Vilhjálmi Alvar Þórarinssyni dómara strax eftir leik og uppskar tvö gul og þar með rautt. 

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, tók einnig þátt og hljóp út á völl og kvartaði í Vilhjálmi. Hann var ósáttur yfir að ekki hafi verið lengri uppbótartími.

Þegar liðin voru svo á leið til búningsklefa sauð uppúr milli formanna knattspyrnudeildanna, Jóns Rúnars Halldórssonar hjá FH og Edvards Barkar Edvardssonar hjá Val. Rifust þeir eins og óðir menn og létu orð falla til hvors annars. 

Lúðvík tók líka þátt og það var ekki runnin af honum reiðin þegar blaðamenn mættu niður í viðtöl eins og sjá má. Sakaði hann Börk meðal annars um að taka sér sjálfum pening af hverjum félagaskiptum Valsmanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert