KSÍ: Tímasetningin hefði ekki skipt máli

Gríðarleg eftirspurn er eftir miðum til að sjá strákana okkar …
Gríðarleg eftirspurn er eftir miðum til að sjá strákana okkar mæta Króötum. mbl.is/Eva Björk

„Það voru fyrst og fremst kerfislegar ástæður fyrir þessu,“ sagði Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ um ástæður þess að miðar á leik Íslands við Króatíu í HM-umspilinu skuli hafa farið í sölu á midi.is um fjögurleytið í nótt.

KSÍ hafði aðeins gefið út að miðarnir færu í sölu í dag en vildi ekki leggja fram nákvæma tímasetningu. Megn óánægja er með þá ákvörðun að setja miðana í sölu um miðja nótt en Þórir segir það hafa verið nauðsynlegt. Óánægjan hefði alltaf verið mikil þar sem eftirspurnin hafi verið mun meiri en framboðið.

„Það vissu allir að það yrði mikið meiri eftirspurn heldur en framboð á miðum. Ef við hefðum auglýst einhvern tiltekinn tíma þá hefði kerfið aldrei þolað það. Þess vegna var tekin sú ákvörðun að opna þetta í nótt til að þetta færi jafnt og þétt af stað, en ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta myndi seljast svona strax upp. Tímasetningin á miðasölunni hefði ekki skipt neinu máli. Eftirspurning hefði verið alveg jafnmikil á hádegi. Það hefði verið alveg jafnmikil óánægja,“ sagði Þórir.

Enginn vissi hvenær miðarnir færu í sölu

Hann þvertekur fyrir að framkvæmd miðasölunnar hafi á einhvern hátt verið ósanngjörn og að ekki hafi allir setið við sama borð.

„Það var enginn sem vissi neitt um hvenær miðarnir færu í sölu. Við gáfum bara út að það væri snemma,“ sagði Þórir og bætti við að þeir sem hringt hafi og spurt hvenær miðarnir færu í sölu hafi sagst ætla að vakta miðasöluvefinn. Það hafi greinilega gengið eftir.

Miðaverð var óbreytt frá því sem verið hefur í undankeppni HM karla á Laugardalsvelli en það hefur verið gagnrýnt enda þykir það ýta undir hættu á svartamarkaðssölu á miðum. Þórir segist þó ekki halda að mikið magn miða hafi verið keypt af einhverjum einum aðila.

„Ég á eftir að fara yfir það. Ég fylgdist með þessu í nótt og það virtist ekki vera. Það er alltaf hættan þegar svona er [að miðar fari í sölu á svörtum markaði]. Við reynum að fylgjast með því og fyrsta atriðið er þá að skoða hvort einhver einn sé að kaupa mikið af miðum,“ sagði Þórir.

Lottó um miða fyrir næsta stórleik?

Uppselt var á leikinn um klukkan hálfátta í dag en um sjöleytið voru enn um 3.000 miðar eftir.

„Eins og ég segi þá héldum við í samráði við mida.is að kerfið myndi ekki þola það að tímasetningin væri gefin út fyrir fram. Þá hefðu allt of margir verið inni á kerfinu í einu. Ætlunin var að selja þetta eins jafnt og þétt og hægt væri,“ sagði Þórir, og benti á leið sem KSÍ þyrfti hugsanlega að fara í framtíðinni til að gæta fyllstu sanngirni.

„Ef það gengur vel áfram þá þurfum við að taka upp þá umræðu hvort halda eigi hreinlega lottó um miða. Þá geta menn pantað ákveðinn fjölda miða, svo er það bara sett í pott og dregið. Eftirspurnin er greinilega mun meiri en framboðið og svona gætum við vitað hver hún nákvæmlega er,“ sagði Þórir.

Laugardalsvöllur tekur tæplega 10.000 manns í sæti. Um 1.000 miðar eru seldir til gestaliðsins, Króata, en það átti ekki við í síðasta heimaleik þar sem Kýpverjar gáfu frá sér miðana. Þórir segir að um 1.500 miðar séu fráteknir fyrir samstarfsaðila KSÍ. Aðrir miðar fóru hins vegar í almenna sölu.

Strákarnir leika fyrir framan pakkfullan Laugardalsvöllinn þriðja leikinn í röð.
Strákarnir leika fyrir framan pakkfullan Laugardalsvöllinn þriðja leikinn í röð. mbl.is/Eva Björk
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert