Baulað var hressilega á leikmenn íslenska landsliðsins þegar þeir komu inn á Maksimír-leikvanginn í Zagreb fyrir fáeinum mínútum til þess að hefja upphitun. Fáeinar þúsundir áhorfenda eru þar og tóku þeir hressilega við sér í kuldanepjunni þegar íslenska landsliðið gekk inn á leikvanginn.
Áhorfendur voru öllu blíðari á manninn þegar leikmenn Króata gengu inn á leikvöllinn skömmu á eftir íslenska landsliðinu.
Aftur byrjaði baulið þegar vallarþulurinn hóf að kynna liðin, hálftíma áður en flautað verður til leiks.
Bæði lið hita nú upp af miklum móð undir dynjandi króatískri rokktónlist sem fellur misjafnlega í kramið meðal Íslendinga sem mættir eru á leikvöllinn.