Ólafur: Ég hefði engu breytt

Gunnleifur Gunnleifsson fangar boltann eftir hornspyrnu Fjölnis.
Gunnleifur Gunnleifsson fangar boltann eftir hornspyrnu Fjölnis. mbl.is/Ómar

Ólafur Kristjánsson, fráfarandi þjálfari Breiðabliks í knattspyrnu, hefði kosið fleiri stig úr viðureigninni við Fjölnismenn fyrr í kvöld, en liðið gerðu 2:2 jafntefli þar sem Fjölnismenn áttu meira í leiknum.

„Það var ekkert vanmat hjá okkur, við vissum alveg af þeirra styrkleikum. Ég breytti aðeins uppstillingunni og leikkerfinu til að setja meiri pressu á varnarmenn þeirra, hvort það hafi tekist sem skildi er hinsvegar annað mál. Mér fannst þó framför í spilinu frá síðasta leik, en við vorum ekki að spila þann bolta sem við erum kannski þekktastir fyrir,“ sagði Ólafur.

Tilkynnt var um það fyrir nokkru síðan að Guðmundur Benediktsson, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, tæki við liðinu þann 2. júní þegar Ólafur tekur við danska liðinu Nordsjælland. Getur verið að sú ákvörðun hafi haft slæm áhrif á liðið, í stað þess að hætta strax, eða bíða með tilkynninguna ?

„Þetta eru miklar vangaveltur hef ég heyrt. En möguleikarnir voru tveir. Að hætta strax og annar tæki við, eða gera þetta svona. Ef við hefðum verið í þeirri stöðu að annar hefði tekið við og við værum samt með tvö stig eftir fjóra leiki, þá væru fjölmiðlar nú að spyrja eftirmann minn, hvort ekki hefði verið réttara að gera þetta á hinn veginn. Þetta er einfaldlega þannig mál að ekki er hægt að segja til um hvað hefði verið rétt og hvað hefði verið rangt. Svona er staðan einfaldlega núna. Ég hef verið með þetta lið frá 2006 og gengið í gegnum þykkt og þunnt, en við höfum nú yfirleitt náð að vinna okkur út úr þeim vandræðum sem að okkur hafa steðjað. En ef ég hefði verið æðsti maður í Breiðabliki, þá hefði ég samt gert þetta svona, ég hefði engu breytt,“ sagði Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka