Fram hefur bikarvörnina í Úlfarsárdal

Fram mun leika heimaleik sinn gegn KA í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu á gervigrasvelli sínum í Úlfarsárdal í Reykjavík á þriðjudag. Þetta verður fyrsti heimaleikur Fram á vellinum að sumarlagi, því liðið hefur aðeins leikið á vellinum í deildabikarkeppninni.

„Það eru ekki eins strangar kröfur gerðar af KSÍ um velli í bikarkeppninni og á Íslandsmótinu. Svokallaðir D-vellir eru leyfðir í bikarkeppninni og því vildum við nýta það og spila heimaleikinn okkar gegn KA í Úlfarsárdalnum fyrst Laugardalsvöllurinn er ekki ennþá klár,“ sagði Snorri Már Skúlason formaður meistaraflokksráð karla í knattspyrnu hjá Fram í samtali við mbl.is í dag.

„Þetta er eitt besta gervigras á landinu og liðið hefur nær eingöngu æft þarna síðustu vikur, eða í raun eftir að það varð ljóst að við myndum spila fyrstu heimaleiki okkar á Þróttarvellinum í Laugardal,“ sagði Snorri og að það væri óhætt að segja að völlurinn í Úlfarsárdal væri í raun meiri vísir að heimavelli Fram heldur en gervigrasið í Laugardalnum.

Leikur Fram og KA í bikarkeppninni á þriðjudag hefst klukkan 17.30 sem er kannski frekar óvenjuleg tímasetning. Ástæðan fyrir þessum leiktíma er hins vegar sú að KA-menn þurfa að komast aftur norður sem fyrst og ef leikurinn færi yrði framlengdur var ákveðið að hafa leikinn svona snemma.

Fram varð bikarmeistari í fyrra eftir sigur á Stjörnunni eftir vítspyrnukeppni í úrslitaleik bikarkeppninnar. Það var fyrsti bikarmeistaratitill Fram frá árinu 1989.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert