Harpa: Jákvætt að klára færin

Harpa Þorsteinsdóttir fagnar einu af fjórum mörkum sínum í rigningunni …
Harpa Þorsteinsdóttir fagnar einu af fjórum mörkum sínum í rigningunni á Selfossi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Harpa Þorsteinsdóttir var besti leikmaður vallarins þegar Stjarnan vann 5:3 sigur á Selfossi á útivelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Hún var þakklát fyrir stigin þrjú - og mörkin fjögur sem hún skoraði.

„Þetta var mjög jákvætt hjá okkur að koma á mjög sterkan útivöll og ná sigri. Við vissum að þetta yrði erfitt, Selfoss ætlaði greinilega að setja mikla pressu á okkur í byrjun og gerðu það. Þær komust yfir en mér fannst við spila frábærlega út úr þeirri stöðu. Það var gríðarlega mikill karakter hjá okkur að koma svona sterkt til baka og fara með góða forystu inn í hálfleik,“ sagði Harpa í samtali við mbl.is eftir leik.

Selfoss komst í 1:0 en Stjarnan svaraði með fjórum mörkum fyrir leikhlé þar sem Harpa skoraði meðal annars þrennu á tólf mínútum. Hún bætti svo fjórða marki sínu við í síðari hálfleik en þrátt fyrir það vildi markadrottningin ekki meina að þetta væri „venjulegur dagur á skrifstofunni“.

„Nei, ég segi það nú ekki, en þegar liðið er að skapa svona mikið af færum þá er auðvitað mjög gott að vera framherji og jákvætt að ná að klára færin sín.“

Selfoss skoraði þrjú mörk í kvöld en fyrir leikinn hafði Stjarnan fengið á sig samtals þrjú mörk í leikjum sumarsins.

„Við erum að fá á okkur klaufaleg mörk og þurfum eitthvað að fara yfir það, hvort það er einbeitingarleysi eða hvað það er, við þurfum að gera betur og megum klárlega ekki við þessu,“ sagði Harpa og bætti við að Selfyssingar hefðu gert Stjörnunni erfitt fyrir í síðari hálfleik.

„Þrátt fyrir það þá var sigurinn ekki í hættu og mér fannst hann verðskuldaður. En seinni hálfleikurinn var erfiður og við erum mjög þakklátar fyrir þrjú stig út úr þessum leik,“ sagði Harpa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert