Balbi: Suárez hefur hjálpað mér mikið

Gonzalo Balbi í leik KR og Celtic.
Gonzalo Balbi í leik KR og Celtic. mbl.is/Eggert

Gonzalo Balbi, leikmaður KR, kveðst vera í góðu sambandi við mág sinn, Luis Suárez, leikmann Barcelona og einn af bestu knattspyrnumönnum heims.

Balbi sagði við skoska blaðið HeraldScotland eftir leik KR og Celtic í vikunni að hann hefði heyrt í Suárez fyrir leikinn.

„Við töluðum saman fyrir leikinn, við erum oft í sambandi. Við höfum þekkst síðan hann var 15 ára gamall svo vinátta okkar nær langt aftur. Hann komst ekki til Íslands til að sjá leikinn því hann er kominn til Barcelona til að ganga frá málum þar. Ég held að hann hafi um margt mikilvægara að hugsa þessa dagana. En auðvitað er gott að geta hringt í hann hvenær sem er, hann hefur hjálpað mér mikið," segir Balbi við blaðið.

Suárez er giftur Sofiu, systur KR-ingsins, en fjölskylda hennar flutti frá Úrúgvæ til Barcelona árið 2003.

„Luis er frábær náungi. Ímynd hans er ekki sem best um þessar mundir vegna þess sem gerðist í heimsmeistarakeppninni en hann er alls ekki þannig. Hann er núna í hópi þeirra bestu í heiminum en þið megið trúa því að hann hefur þurft að berjast hart fyrir öllu sem hann hefur afrekað á sínum ferli," segir Gonzalo Balbi.

Suárez er sem kunnugt er í keppnisbanni til loka októbermánaðar eftir að hafa bitið Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í Brasilíu. Hann má ekki fara á neina knattspyrnuleiki á meðan hann er í banninu og hefði því væntanlega ekki verið hleypt inná KR-völlinn síðasta þriðjudag þó hann hefði mætt þangað!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert