„Gríðarleg vonbrigði eru í raun fyrstu viðbrögð mín eftir þennan leik,“ sagði Guðmundur Benediktsson þjálfari Breiðabliks eftir 4:2-tap gegn FH í 12. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
„Mér fannst þetta bara vera frábær leikur tveggja frábærra liða og synd að við skyldum þurfa að tapa,“ sagði Guðmundur eftir leikinn í kvöld. Honum fannst Blikar ekki vera nógu skynsamir í seinni hálfleik í kvöld og hans menn hefðu klappað boltanum of mikið.
„Við vorum í of miklu klappi og þetta gekk of hægt, þess vegna náðum við ekki að skora þetta jöfnunarmark sem við vildum. En við tökum ekkert af FH-ingum, þeir gerðu þetta mjög skynsamlega og listilega vel, satt að segja,“ sagði Guðmundur.
Þá sagði Guðmundur að hann hefði ekki skilið af hverju mark Elfars Freys Helgasonar hafi ekki fengið að standa í leiknum, en þó Guðmundur hafi ekki hrósað dómara leiksins þá hafi það ekki verið dómarinn sem skoraði mörkin fjögur sem Blikar fengu á sig.