Sigurður Ragnar: Gríðarlega mikilvæg stig

Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson mbl.is/Styrmir Kári

Sigurður Ragnar Eyjólfsson var ánægður með varnarleikinn hjá sínum mönnum í ÍBV þegar liðið vann góðan útisigur á Víkingi 2:1 í Pepsí-deild karla í knattspyrnu í dag. 

„Mér fannst okkur takast að verjast rosalega vel. Við lögðum upp með sterkan varnarleik. Við vorum aftarlega og gáfum þeim eftir ákveðin svæði á vellinum en sóttum hratt. Við fengum ágætis marktækifæri og skoruðum tvö góð mörk. Ég held að baráttan í okkar liði og skipulagið í vörninni hafi fyrst og fremst skilað okkur langleiðina. Þetta eru frábær þrjú stig. Ekki bara gríðarlega mikilvæg stig fyrir okkur heldur höfðu Víkingar unnið alla leiki á þessum velli í sumar að ég held,“ sagði Sigurður Ragnar þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum. 

Ekki er ofsagt hjá Sigurði að stigin séu mikilvæg því ÍBV var í fallsæti fyrir leikinn með 14 stig en verður ekki í fallsæti að umferðinni lokinni. Fjögur lið voru stigi á undan og tvö þeirra Breiðablik og Fram eigast nú við á Kópavogsvelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert