„Ég svara ekki svona barnalegum spurningum, það er bara grín að hlusta á svona kjaftæði,“ voru viðbrögð Magnúsar Gylfasonar, þjálfara Valsmanna, þegar fjölmiðlamenn spurðu hann út í þær ásakanir að það hefði verið skipulagt hjá lærisveinum hans að sparka Aron Elís Þrándarson, leikmann Víkings, niður í 1:1-jafntefli þeirra í dag.
Aron Elís var ítrekað sparkaður niður og fengu Valsmenn meðal annars þrjú gul spjöld fyrir það, áður en Aron fór meiddur af velli. Hann var fluttur upp á sjúkrahús og enn er óvíst hver staðan á honum er. Magnúsi fannst leikurinn þó ekki vera grófur.
„Góður leikmaður lendir í því að brotið sé á honum, það var ekkert skipulagt upplegg að brjóta á Aroni. Ég tek ekki þátt í svona,“ sagði Magnús, en Valsmenn eru enn fimm stigum frá Evrópusæti.
„Við hefðum verðskuldað þrjú stig en svona er fótboltinn. Það er svolítið síðan við hættum að hugsa um Evrópusætið, við tökum einn leik í einu og hefðum þurft að fá þrjú stig í dag til að stríða Víkingunum aðeins,“ sagði Magnús Gylfason, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði þar sem hann svarar frekari spurningum um meiðsli Arons.