Ólafur: Lítur út eins og þetta sé skipulagt

Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkinga, var mjög ósáttur eftir 1:1-jafntefli sinna manna við Valsmenn í 19. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. Aron Elís Þrándarson fór meiddur af velli eftir að hafa verið ítrekað brotið á honum og Ólafur segir það líta út eins og skipulega gert, en Aron var fluttur á sjúkrahús í hálfleik.

„Það leit klárlega þannig út, ég ætla ekki að saka þá um það en það leit þannig út og það sáu það allir á vellinum. Það endaði með því að hann endaði á spítala. Mér finnst dómarinn alveg gera í buxurnar, það stendur í lögum KSÍ að svona brot eins og þeir tóku trekk í trekk eru rauð spjöld og ekkert annað,“ sagði Ólafur. Hann var þó sáttur við baráttu sinna manna sem halda fimm stiga forystu á Val í baráttu um Evrópusætið.

„Ég er fyrst og fremst ánægður að við lögðum mikla vinnu í þennan leik, við börðumst eins og ljón. Þeir nálguðust okkur ekki en það eru níu stig í pottinum og fimm stig á milli, svo við verðum að hafa okkur alla við ef við ætlum okkur að landa þessu Evrópusæti,“ sagði Ólafur, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði þar sem vel er farið yfir meiðsli Arons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert