Í kvöld fór að snjóa á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn á þessu hausti og fótboltavellirnir þar sem fram fara leikir í lokaumferð Íslandsmótsins á morgun eru fagurhvítir ásýndum.
Eva Björk Ægisdóttir ljósmyndari var á ferð framhjá Fjölnisvellinum rétt áðan og tók meðfylgjandi mynd.
Samkvæmt veðurspá eru þó hverfandi líkur á að snjórinn verði til trafala á morgun þegar leikirnir fara fram því miðað við spá og hitatölur næsta sólarhringinn verður hann bráðnaður í fyrramálið.
Spáð er 5-6 stiga hita um miðjan daginn á meðan leikirnir fara fram en hætt er við að vellirnir verði ansi blautir, bæði eftir rigningarnar undanfarið og svo snjóinn í kvöld, auk þess sem eitthvað rignir væntanlega á morgun.
Hafnarfjörður virðist hafa sloppið við snjókomuna því samkvæmt upplýsingum mbl.is sást ekki snjókorn á Kaplakrikavelli áðan en þar fer úrslitaleikur FH og Stjörnunnar fram síðdegis á morgun.