„Ég er búinn að heyra aðeins í forráðamönnum Lilleström og ég reikna með að við munum ræðum saman á morgun eða hinn,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari bikarmeistara KR, í samtali við Morgunblaðið í gær en vaxandi líkur eru á að hann taki við þjálfun norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström eftir tímabilið.
„Eigum við ekki að segja að það sé gagnkvæmur áhugi en ég undirstrika að það hafa ekki hafist neinar formlegar viðræður um þessi mál. Það eru fleiri en ég inni í myndinni. Ef hugmyndir mínar og Lilleström fara saman með allt sem lýtur að þjálfuninni, umhverfinu og aðstæðum þá er áhugi af minni hálfu að fara til liðsins,“ sagði Rúnar en hann lék á sínum tíma með félaginu við góðan orðstír og er mjög vinsæll á meðal stuðningsmanna félagsins.
Forráðamenn KR eru eðlilega farnir að líta í kringum sig eftir þjálfara fari svo að Rúnar yfirgefi herbúðir félagsins.
„Það virðist vera að Rúnar sé efstur á blaði hjá Lilleström og áhuginn er gagnkvæmur. Það kæmi mér á óvart ef þeir næðu ekki saman,“ sagði Baldur Stefánsson, varaformaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Morgunblaðið í gær.
„Rúnar er með samningstilboð frá KR og það verður auðvitað hans að vega og meta hvað hann gerir en ég á nú frekar von á því að hann fari til Lilleström,“ sagði Baldur.