Valdið mér miklum skaða

Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Morgunblaðið/Ómar

„Það er að sjálfsögðu mikill léttir að þetta mál skuli vera endanlega úr sögunni og nú getur maður loksins horft fram á veginn á ný. En það er búið að valda mér miklum skaða að standa í þessu, ekki síst ómakleg ummæli sem hafa fallið í minn garð,“ segir Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfari sem á fimmtudaginn vann mál sitt gegn knattspyrnudeild Grindavíkur fyrir hæstarétti. Þangað höfðu Grindvíkingar áfrýjað því eftir að dæmt hafði verið Guðjóni í hag í Héraðsdómi Reykjaness.

Þeir þurfa að greiða Guðjóni 8,4 milljónir króna, auk málsvarnarkostnaðar, í skaðabætur fyrir vangoldin laun. Uppsögn þeirra í október 2012, þegar Guðjón átti eftir tvö ár af þriggja ára samningi, var því úrskurðuð ólögmæt.

Guðjón segir að framtíðin hjá sér sé algjörlega óskrifað blað og hann viti ekki hvort framhald verði á löngum þjálfaraferli sem hófst á Akranesi árið 1987.

„Nú er ég bara að leita að vinnu. Ég talaði við nokkra formenn knattspyrnudeilda í haust, þeir könnuðu stöðuna hjá mér en ekkert af því fór lengra. Einn aðili í efstu deild sagði við mig að þeir vildu ekki ræða málin frekar á meðan ég ætti í málaferlum við eitt af aðildarfélögum hreyfingarinnar,“ sagði Guðjón og kveðst vera sár yfir ummælum sem fallið hafi og án efa skaðað sig heilmikið.

„Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagði í viðtali í Morgunblaðinu í október 2012 að þeir hefðu átt fyrsta flokks samstarf við mig og ekkert haft út á mig að setja. Þeir væru hinsvegar í mjög erfiðri fjárhagsstöðu og ég hefði tekið fullan þátt í að vinna úr henni með þeim. Svo þegar ég stóð á mínum rétti og vildi ekki samþykkja einhvern nauðasamning um starfslok breyttist tónninn algjörlega. Það var mjög dapurlegt að lesa viðtal við Jónas í Víkurfréttum á föstudaginn þar sem hann talar um mig sem gallagrip og segir það hafi verið mistök að ráða mig.“

Lengra viðtal  við Guðjón Þórðarson er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert