Rúmlega 600 Íslendingar verða á Tékkaleiknum

Áhorfendur á Laugardalsvellinum á leik Íslendinga og Hollendinga.
Áhorfendur á Laugardalsvellinum á leik Íslendinga og Hollendinga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslendingar verða fjölmennir á leik Tékka og Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Tékklandi sunnudaginn 16. nóvember.

Að sögn Ómars Hákonarsonar fjölmiðlafulltrúa KSÍ verða rúmlega 600 Íslendingar á leiknum eða fleiri en voru í seinni leiknum í umspilinu um sæti á HM í Zagreb í Króatíu í nóvember á síðasta ári.

Vegna þessa fjölda stuðningsmanna íslenska landsliðsins mun KSÍ senda sérstakan öryggisfulltrúa út á leikinn og er það í fyrsta skipti sem það gerist. Víðir Reynisson öryggisvörður Laugardalsvallar verður í því hlutverki en síðustu vikurnar hefur hann haft í nógu að snúast vegna eldgossins í Holuhrauni en Víðir starfar hjá Almannavörnum.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert