Rúnar: Siggi Raggi er góður kostur

Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rúnar Kristinsson segir það mjög spennandi verkefni að taka við þjálfun norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström en hann skrifaði í dag undir þriggja ára samning við félagið sem tekur gildi þann 1. janúar.

„Ég er búinn setja mig aðeins inn í þetta hjá félaginu og tel mig vera tilbúinn að takast á við þetta verkefni sem er mjög spennandi. Ég þekki vel til hérna og þekki mikið af fólki sem starfar hjá klúbbnum,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is í dag en Rúnar er miklum metum hjá fjölmörgum sem að félaginu starfa og hjá stuðningsmönnum en hann lék með Lilleström á árunum 1997 til 2000.

Ræðir við Pálma og fleiri sem eru með lausa samninga

Fréttir af fjárhagsstöðu Lilleström hafa oftar en ekki ratað í fréttir en töluvert basl hefur verið hjá félaginu í þeim efnum. Spurður út í þessi mál sagði Rúnar;

„Það er búið að vera að vinna í þessum hlutum í töluverðan tíma og það verður áfram. Það er verið að setja launaþak á leikmenn og fyrir vikið getur orðið erfiðara að fá leikmenn. Það eru hins vegar margir klúbbar hér í Noregi að glíma við erfiðan fjárhag og þau geta ekki yfirboðið í leikmenn neitt sérstaklega. Ég mun setjast niður á morgun með þeim lykilmönnum sem eru að losna á samningi og hugsanlega náum við að halda einhverjum af þeim en ekki öllum. Pálmi Rafn er einn af þeim,“ sagði Rúnar.

Rúnar segist muni hitta fráfarandi þjálfara Lilleström, Magnus Hegelund, á morgun þar sem þeir munu fara saman yfir hlutina.

„Ég mun fá fullt af upplýsingum hjá honum sem munu nýtast mjög vel og svo er stefnan að hitta þá leikmenn sem eru með lausa samninga.“

Hefði kosið að taka Pétur Pétursson með sér

Rúnar vildi fá Pétur Pétursson með sér sem aðstoðarmenn en þeir hafa starfað vel saman hjá KR-ingum undanfarin ár. Ekki tókust samningar á milli Péturs og Lilleström og því verður ekkert af samvinnu þeirra áfram.

„Ég hefði klárlega kosið að taka Pétur með mér enda hefur hann reynst mér frábær aðstoðarmaður og á jafnstóran þátt í þeim árangri sem KR hefur náð undir minni stjórn. Ég vildi ólmur hafa hann áfram mér við hlið að málin æxluðust á annan hátt í samningaviðræðum. Þetta var ekki alveg að henta honum og hann og félagið náðu ekki saman. Það var ekkert sem ég gat gert í, því miður.

Það er inni í myndinni að aðstoðarþjálfarinn sem hefur verið hjá Lilleström verði áfram en svo er ég búinn að undirstinga einn mann heima sem ég hef áhuga á að taka með mér í þetta verkefni. Þetta er Sigurður Ragnar Eyjólfsson. Við erum búnir að hittast og ræða málin og Siggi Raggi er góður kostur en það verður tekin ákvörðun um þetta í næstu viku,“ sagði Rúnar.

Vill ekki hafa of marga Íslendinga

Kemur til greina að fá íslenska leikmenn til Lilleström?

„Það er alveg öruggt að það eru leikmenn á Íslandi sem geta hæglega spilað í norsku úrvalsdeildinni. Ég mun skoða það vel og sjá í hvaða stöður helst vantar og hvort þannig leikmaður sé á lausu heima. Ég þarf að styrkja liðið hvort sem það verður með Íslendingum eða ekki. Ég vil hins vegar helst ekki vera með allt of marga leikmenn frá Íslandi hérna,“ sagði Rúnar, sem mun dvelja í Noregi næstu daga en hann flytur síðan alfarið út í byrjun janúar.

Lilleström hafnaði í 5. sæti á nýafstaðinni leiktíð og varð Pálmi Rafn Pálmason markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert