Rasmus Christiansen til KR í janúar

Rasmus Christiansen.
Rasmus Christiansen. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KR-ingar hafa samið við danska miðvörðinn Rasmus Christiansen til tveggja ára og gengur hann í raðir Vesturbæjarliðsins frá Ull/Kisa í Noregi í janúar næstkomandi með því skilyrði að hann standist læknisskoðun þegar hann kemur til landsins en hann er að stíga upp úr krossbandameiðslum.

Christiansen, sem var fyrirliði Ull/Kisa, meiddist í upphafi þessa árs og fór í aðgerð nú í vor. Samkvæmt Baldri Stefánssyni varaformanni KR á hann hins vegar að vera klár í það að spila fótbolta strax í janúar en hann hefur nú þegar gengist undir eina læknisskoðun.

Christiansen spilaði með ÍBV árin 2010 til 2012 og var afar öflugur í vörn Eyjamanna á þeim tíma. Ljóst er að KR-ingar ætla sér stóra hluti á næsta tímabili með þá Bjarna Guðjónsson og Guðmund Benediktsson í brúnni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert