Tveggja marka tap gegn Sviss

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tapaði 2:0 fyrir Sviss í fyrsta leik sínum í Algarve-bikarnum í Portúgal. Staðan var markalaus í hálfleik.

Margir af reyndari leikmönnum íslenska liðsins voru á varamannabekknum þegar flautað var til leiks og í byrjunarliðinu var til að mynda Lára Kristín Pedersen sem þreytti frumraun sína með A-landsliðinu.

Sviss fékk tvö mjög góð færi til að komast yfir í fyrri hálfleik en Sandra Sigurðardóttir var vel á verði í markinu. Elín Metta Jensen komst næst því að skora í fyrri hálfleiknum fyrir Ísland en rétt missti af sendingu Fanndísar Friðriksdóttur fyrir markið, snemma leiks. Staðan því 0:0 eftir 45 mínútur.

Sviss komst yfir með marki úr vítaspyrnu á 56. mínútu, rétt eftir að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hafði skotið framhjá úr ágætu færi í skyndisókn. Ísland gerði harða hríð að marki Sviss eftir þetta og hornspyrna Hallberu Guðnýjar Gísladóttur small til að mynda í stönginni en inn vildi boltinn ekki. Þess í stað bætti Sviss við seinna marki sínu á 65. mínútu, með skoti í stöng og inn.

Freyr Alexandersson þjálfari var duglegur við að skipta leikmönnum inná og meðal annars kom Margrét Lára Viðarsdóttir inná þegar 25 mínútur lifðu leiks, í sínum fyrsta leik í tæpa 17 mánuði. Átta mánaða gamall sonur hennar fylgdist með úr stúkunni í blíðviðrinu í Lagos.

Ísland mætir næst Noregi á föstudaginn en lokaleikur liðsins í riðlakeppninni er svo gegn Bandaríkjunum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

-------------------------------------------

Ísland - Sviss, 0:2

90. Leik lokið. Svisslendingar fagna 2:0-sigri.

87. Margrét Lára var nálægt því að sleppa ein gegn markverði en náði ekki nægilega góðri stjórn á boltanum.

80. Tíu mínútur til stefnu en munurinn er enn tvö mörk. Það stefnir í þriðja sigur Sviss á Íslandi á síðustu átján mánuðum.

73. Ísland vildi fá vítaspyrnu þegar svo virtist sem brotið væri á Margréti Láru innan teigs en ekkert var dæmt. Guðný Björk er komin inná fyrir Fanndísi.

66. Margrét Lára og Guðmunda Brynja eru nú fremstar en Dagný og Gunnhildur á miðjunni í 4-4-2 leikkerfi.

65. Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eru nú komnar inná fyrir Söru Björk og Ásgerði Stefaníu. Þetta er fyrsti leikur Margrétar Láru í tæpa 17 mánuði!

65. MARK! Sviss kemst í 2:0 með skoti frá vítateigslínunni sem fór í stöng og inn, strax í kjölfarið á því að spyrna Hallberu fór í stöngina á marki Sviss. Þvílík vonbrigði. 

64. Ísland aftur nærri því að jafna metin! Hallbera átti hornspyrnu sem small í fjærstönginni og Hólmfríður var í baráttunni um að ná til frákastsins en Svisslendingar náðu að bjarga sér. Enn nægur tími til stefnu. Margrét Lára og Dagný að koma inná.

59. Guðmunda Brynja Óladóttir er komin inná fyrir Elínu Mettu. Ísland var nálægt því að jafna metin eftir hornspyrnu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir átti skalla fyrir markið en Svisslendingar komu boltanum í burtu nánast af marklínu.

56. MARK! Sviss er komið yfir í leiknum með marki úr vítaspyrnu. Skömmu áður hafði Ísland fengið gott færi þegar Elín Metta og Gunnhildur geystust fram í skyndisókn en Gunnhildur renndi boltanum rétt framhjá markinu.

46. Seinni hálfleikur hafinn. Freyr gerir tvær breytingar á íslenska liðinu. Inn koma Arna Sif Ásgrímsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir, en út af fara Glódís Perla og Lára Kristín.

45. Hálfleikur. Staðan er markalaus og Íslendingar geta líklega prísað sig sæla með það eftir tvær stórhættulegar marktilraunir Svisslendinga.

42. STÖNG! Það hafa verið að opnast glufur á íslensku vörninni og Svisslendingar voru hársbreidd frá því að komast yfir þegar þeir áttu skot sem fór í stöng og út áður en Sandra náði að handsama boltann. Skammt til hálfleiks.

33. Sandra kom Íslandi til bjargar þegar sóknarmaður Sviss komst í dauðafæri gegn henni á markteig. Sandra sjálfsagt staðráðin í að nýta tækifærið vel í markinu. Skömmu síðar fékk Caroline Abbé, fyrirliði Sviss, fyrsta gula spjaldið.

23. Eins og þjálfarar íslenska liðsins tóku skýrt fram í aðdraganda leiksins er ætlunin að loka vel á sóknir Sviss og það hefur gengið vel hingað til. Svisslendingar hafa ekki skapað sér færi svo heitið geti. Ísland tapaði báðum leikjum þjóðanna í undankeppni HM, 2:0 á Íslandi og 3:0 ytra.

15. Staðan er markalaus eftir korters leik. Ísland fékk fyrsta færið þegar Fanndís átti góðan sprett og fyrirgjöf en Elín Metta rétt missti af boltanum. Sviss hefur átt tvær hættulegar aukaspyrnur en Sandra séð við þeim.

5. Þess má geta að Caroline Abbé, fyrirliði Sviss og liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá Bayern München, leikur í dag sinn 100. A-landsleik. Við óskum henni til hamingju með það en vonum að hún tapi...

1. Leikur hafinn. Þá er boltinn farinn að rúlla í blíðviðrinu í Portúgal. Íslenska liðið ætlar að leggja mikla áherslu á varnarleikinn gegn Sviss í dag og vonandi skilar það árangri.

0. Það vekur óneitanlega athygli að sjá hvernig dómaratríóið er skipað í þessum leik. Aðaldómarinn og annar aðstoðardómarinn koma frá Norður-Kóreu en hinn aðstoðardómarinn er frá Suður-Kóreu. Allir vinir í fótboltanum, að sjálfsögðu.

0. Veðrið er með besta móti í Lagos, um 17 stiga hiti og smávægileg gola. Bara svona svipað og á Íslandi!

0. Ramona Bachmann, aðalstjarna svissneska liðsins og sú sem fór illa með Ísland með sannkölluðum Messi-töktum í síðustu undankeppni HM, byrjar á varamannabekknum hjá Sviss.

0. Varnarlína Íslands er öll skipuð leikmönnum sem urðu tvöfaldir meistarar með Stjörnunni síðasta sumar, og Sandra markvörður er þar fyrir aftan í markinu. Aftast á miðjunni eru svo þeir Ásgerður og Gunnhildur Yrsa sem eru þaulvanar að spila saman á miðjunni hjá Stjörnunni frá því áður en Gunnhildur fór út til Noregs.

0. Margir af reyndari leikmönnum íslenska liðsins eru á varamannabekknum í dag. Í byrjunarliðinu er hins vegar einn nýliði, Lára Kristín Pedersen úr Stjörnunni, sem leikur sem vinstri bakvörður.

0. Góðan dag og verið velkomin í textalýsingu mbl.is frá leik Íslands og Sviss í Algarve-bikarnum. Við reynum eftir fremsta megni að upplýsa lesendur um gang mála í leiknum.

---------------------------------------

Ísland: (4-5-1) Mark: Sandra Sigurðardóttir. Vörn: Anna María Baldursdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Lára Kristín Pedersen. Miðja: Fanndís Friðriksdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir. Sókn: Elín Metta Jensen.

Varamenn: Margrét Lára Viðarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Katrín Ómarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir, Sonný Lára Þráinsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir.

Sviss: Stenia Michel - Rachel Rinast, Noëlle Maritz, Lia Wälti, Lara Dickenmann, Ana-Maria Crnogorcevic, Rahel Kiwic, Caroline Abbé, Fabienne Humm, Vanessa Bürki, Vanessa Bernauer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert