Íslandsmeistarar Stjörnunnar gerðu sitt annað jafntefli í röð þegar liðið heimsótti Víkinga í kvöld. Lokatölur urðu 2:2 og er niðurstaðan sanngjörn.
Víkingar komust yfir strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Rolf Toft, sem spilaði með Stjörnunni í fyrra, skoraði gegn sínum gömlu félögum. Stjarnan jafnaði hins vegar á nítjándu mínútu með sjálfsmarki eftir að Jeppe Jansen var í boltanum.
Andri Rúnar Bjarnason þakkaði traustið í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í efstu deild og skoraði sitt fyrsta mark á 40. mínútu þegar hann kom Víkingum yfir á ný, en Jeppe Hansen jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks. 2:2 í hálfleik. Það reyndust lokatölur leiksins, en Stjörnumenn áttu meðal annars marktilraun í þverslána undir lokin.
Stjörnumenn hafa nú átta stig að loknum fjórum umferðum en Víkingar hafa sex. Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.
Þá var fylgst með öllum leikjum kvöldsins á einum stað í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is.