„Kannski skefur maður krullurnar af ef illa gengur“

,,Sigurinn var mjög kærkominn og við vorum búnir að vinna vel fyrir honum fannst mér,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, leikmaður Breiðabliks eftir 1:0 sigur á Val í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Blikar höfðu fyrir leikinn gert þrjú jafntefli í öllum þremur leikjum sínum á tímabilinu, en það var þó breyting á því í kvöld er Höskuldur skoraði sigurmark liðsins þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Þetta var annað mark hans í deildinni í sumar, en hann hefur reynst þeim afar mikilvægur í fyrstu umferðunum.

„Þetta var flott spil hjá okkur í dag, lausir til baka til að byrja með en mér fannst við betri í seinni. Fyllilega verðskuldað.“

,,Kiddi sá útundan sér gott hlaup hjá mér og Gulli var mjög solid til baka. Ég var of hæpaður eftir fyrsta markið. Ég hefði getað gefið á Gauja, hann var ekkert alltof sáttur með mig."

,,Í hálfleik vorum við mjög rólegir og við spiluðum vel. Það vantaði aðeins á síðasta þriðjungnum að klára sóknirnar, en það var kominn smá titringur í okkur á 65. mínútu svo það var mjög kærkomið að skora."

Höskuldur skoraði fyrsta mark sitt í sumar með skalla, en hann skartar gullfallegum krullum sem áttu þátt í því marki. Hann segist þó ætla að skafa þær af ef illa gengur hjá honum.

,,Reyndar ekki. Þær fá að haldast meðan ég held þessu róli af, en kannski skefur maður þær af ef illa gengur," sagði hann að lokum.

Höskuldur skoraði í kvöld.
Höskuldur skoraði í kvöld. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert