KR-ingar urðu fyrir áfalli í sigri sínum á Fylki í 4. umferð Pepsideildarinnar í fyrrakvöld þegar framherjinn Gary Martin, markakóngur síðustu leiktíðar, meiddist. Verður hann frá keppni næstu vikurnar.
„Ég var að reyna að sparka boltanum og sveiflaði fætinum af fullum krafti en ég fann strax að eitthvað hefði gerst í hnénu. Ég virðist hafa teygt á liðböndum í hnénu og það er mismunandi hvað það tekur langan tíma að jafna sig á þessu. Í besta falli, ef ég geri allt rétt og er heppinn, verð ég klár fyrir leikinn gegn Val 7. júní. Í versta falli mæti ég líklega til leiks fljótlega eftir leikinn við ÍA sem er um miðjan júnímánuð,“ sagði Gary við Morgunblaðið í gær.
Það er því ljóst að hann missir af heimaleik KR gegn ÍBV á mánudaginn og gegn Keflavík 31. maí, auk bikarleiks við Keflavík 3. júní.
Gary hefur skorað eitt mark í sumar en skoraði 13 í fyrra. Ætla má að meiri ábyrgð færist nú á herðar Þorsteins Más Ragnarssonar, sem leysti Gary af hólmi snemma í seinni hálfleik gegn Fylki og skoraði undir lok leiksins. Englendingurinn ber sig vel þrátt fyrir meiðslin.
„Þetta væri meira svekkjandi ef staðan væri öðruvísi. Við erum aðeins tveimur stigum á eftir FH-ingum þrátt fyrir að hafa tapað fyrir þeim í fyrsta leik, og Stjarnan og FH mætast í næstu umferð. Þetta verður erfiðara eftir því sem lengra líður en ef ég næ að mæta aftur gegn Val eða ÍA verð ég alveg sáttur,“ sagði Gary. Hann bendir á að Fylkisvöllur sé mjög laus í sér og það hafi hugsanlega haft sín áhrif á hvernig fór í fyrrakvöld. Hann kvarti þó ekki enda búinn að sleppa alfarið við meiðsli síðan hann kom til ÍA árið 2010.