Breiðablik náði loks að koma fram hefndum gegn meistaraliði Stjörnunnar þegar liðin mættust í Pepsi-deild kvenna á Kópavogsvelli í kvöld. 1:0 sigur Blika gefur þeim eins stigs forskot á toppi deildarinnar eftir fimm leiki, og því ljóst að spennandi sumar er framundan.
Það var ljóst frá fyrstu mínútu að mikið var undir í þessum leik, enda hafa liðin mæst oft síðustu vikur og nú síðast á föstudagskvöldið þar sem Stjarnan hafði betur í bikarnum. Bæði lið byrjuðu varfærnislega í kvöld og það var ljóst að engin vildi vera sú sem gerði mistök. Fanndís Friðriksdóttir fékk fyrstu tvö færi leiksins fyrir Blika, en annars var leikurinn nokkuð jafn á að horfa fyrsta stundarfjórðunginn eða svo.
Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fór Stjarnan smátt og smátt að ná undirtökunum á leiknum, en færin létu á sér standa. Írunn Þorbjörg Aradóttir fékk besta færi þeirra eftir tæplega hálftíma leik, en hún þrumaði yfir markið úr teignum eftir fyrirgjöf frá Hörpu Þorsteinsdóttur.
Besta færi fyrri hálfleiks fékk Telma Hjaltalín Þrastardóttir fyrir Blika. Eftir hornspyrnu Stjörnunnar vann Fanndís boltann og geystist fram, kom boltanum á Telmu sem var sloppin ein innfyrir en Sandra Sigurðardóttir varði meistaralega. Telma náði frákastinu en skot hennar fór naumlega framhjá stönginni. Tvö sannkölluð dauðafæri.
Telma bætti hins vegar fyrir það þremur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks. Fanndís komst upp að endamörkum, sendi fyrir þar sem Telma tók á móti boltanum í teignum og skoraði með skoti í nærhornið framhjá Söndru í markinu. 1:0 í hálfleik.
Stjarnan var meira með boltann í upphafi síðari hálfleiks, en það vantaði ekki kraftinn í Blikastúlkur sem pressuðu andstæðinginn stíft og eltu hvern einasta bolta. Enn var það svo að þær uppskáru hættulegri færi, Rakel átti skalla af markteig eftir fyrirgjöf frá Fanndísi sem átti svo sjálf skot á markið í næstu sókn.
Stjarnan hélt boltanum ágætlega og reyndi eftir bestu getu að skapa sér færi í síðari hálfleik, en leikur Blika var mjög skipulagður. Hápressa heimakvenna skilaði sínu og andstæðingurinn fékk aldrei tíma með boltann. Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir bætti Stjarnan í sóknina og gerði dauðaleit að jöfnunarmarkinu. Hættulegasta færið kom þegar Anna Björk Baldursdóttir átti skalla eftir hornspyrnu sem Guðrún Arnardóttir skallaði frá á marklínu Blika.
Stjarnan pressaði stíft undir lokin en vörn Blika og Sonný Lára þar fyrir aftan hélt út, lokatölur 1:0 fyrir Breiðabliki sem er nú með 13 stig í toppsætinu, einu stigi meira en Selfoss og tveimur stigum meira en Þór/KA. Stjarnan er með níu stig og datt niður í fjórða sætið eftir sigur Selfoss í kvöld.
Breiðablik kom því loks fram hefndum gegn Stjörnunni, en liðin hafa mæst þrívegis nú á vormánuðum, þar af í tveimur úrslitaleikjum. Stjarnan hafði betur bæði í úrslitaleik Lengjubikarsins og í Meistarakeppninni, auk þess sem liðið sló Blika út úr sextán liða úrslitum bikarkeppninnar.
Fylgst var með gangi mála í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is.