Veit alltaf hvað Garðar getur gert

Ármann Smári Björnsson, til hægri, í baráttu við Guðjón Baldvinsson …
Ármann Smári Björnsson, til hægri, í baráttu við Guðjón Baldvinsson framherja Stjörnunnar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ármann Smári Björnsson, fyrirliði Skagamanna og þeirra besti maður í leiknum við Stjörnuna í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Garðabænum í dag, kvaðst mjög ánægður með að halda heim á Akranes með eitt stig í farangrinum.

Liðin skildu jöfn, 1:1, og Garðar B. Gunnlaugsson jafnaði fyrir tíu Skagamenn sem höfðu áður misst Albert Hafsteinsson af velli með rautt spjald.

„Já, það má segja það, úr því sem komið var var bara fínt að ná þessu stigi. Það leit kannski ekki út fyrir að þetta yrðu úrslitin. En við vorum ekkert verri aðilinn þegar við vorum orðnir einum færri. Stjörnumenn drituðu vissulega boltanum oft fyrir markið en það kom ekkert út úr því. Jú, þeir klúðruðu vissulega vítaspyrnu. En ég hefði líka átt að skora þarna snemma í leiknum – það var dauðafæri. Við tökum þetta stig fegins hendi,” sagði Ármann við mbl.is en Gunnar Nielsen varði skalla hans úr dauðafæri eftir 17 mínútna leik.

Ármann tók undir það að það hefði verið mjög sterkt að ná að jafna leikinn manni færri.

„Já, liðið sýndi mikinn karakter með því að koma til baka. Maður veit alltaf hvað Garðar getur gert, menn mega ekki gleyma að dekka hann. Garðar þarf bara eitt færi til að skora. Hann gerði það vel og við tökum þetta bara glaðir,” sagði Ármann en viðurkenndi að hann hefði óttast að stigið væri að tapast á ný þegar dæmd var vítaspyrna á Skagamenn á 84. mínútu.

Segist hafa komið við boltann

„Mér brá vissulega, ég hélt að við værum að tapa þessu frá okkur á ný. En Árni var vel gíraður í markinu og hann segist hafa komið við boltann áður en hann fór í stöngina, svo við segjum bara að hann hafi varið þetta. Stigið er okkur dýrmætt og við fögnum því svo sannarlega. Við tökum öll stig eins og staðan  er í dag. Þetta var frábært.”

Ármann sagði að hinn ungi Albert Hafsteinsson hefði verið óheppinn að vera rekinn af velli á 63. mínútu. „Við getum alveg sagt að verri brotum í leiknum hafi verið sleppt en þeim tveimur sem hann var spjaldaður fyrir. Hann var óheppinn, braut bara tvisvar af sér í leiknum. En þetta er bara svoleiðis. Tvö gul spjöld þýða víst bara rautt og það er ekkert við því að segja,” sagði Ármann Smári Björnsson sem hafði nóg að gera og stangaði boltann í burtu hvað eftir annað eftir fyrirgjafir Stjörnumanna í leiknum.

Gunnar Nielsen markvörður Stjörnunnar ver skalla Ármanns Smára Björnssonar úr …
Gunnar Nielsen markvörður Stjörnunnar ver skalla Ármanns Smára Björnssonar úr dauðafæri í fyrri hálfleiknum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka