Atli Viðar veiktist og varð eftir í London

Atli Viðar Björnsson
Atli Viðar Björnsson mbl.is/Árni Sæberg

Atli Viðar Björnsson markaskorarinn mikli í liði FH verður ekki með sínum mönnum í leiknum gegn Inter Bakú í Evrópudeildinni en liðin eigast við í Bakú í Aserbaídsjan annað kvöld.

Atli Viðar fór með FH-liðinu til London á seinni partinn á mánudaginn en á leiðinni veiktist Atli og við komuna til London var hann orðinn mjög slappur og var tekin sú ákvörðun að einangra hann frá leikmannhópnum vegna smithættu. Atli Viðar varð eftir í London og er væntanlegur til landsins í dag.

„Það er ekki hægt að segja að heilsan sé góð. Í fluginu á leið til London fór með að líða illa og við komuna á flugvöllinn var ég algjörlega búinn. Ég var einn í herbergi um nóttina og í gærmorgun var ljóst að ég hafði enga heilsu til að fara með liðinu til Bakú. Það var strax farið að vinna í því að koma mér heim og ég var fá það upplýsingar rétt áðan að líklega kemst ég heim í dag,“ sagði Atli Viðar í samtali við mbl.is frá London í morgun.

„Ég hef líklega nælt mér í einhvern vírus. Ég náði að koma ofan í mig einni ristaðri brauð í morgun og það er það eina sem ég hef borðað í einn og hálfan sólarhring,“ sagði Atli Viðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert