„Liðþófarnir eru í lagi svo þetta hefði getað verið verra, en er alveg nógu slæmt,“ sagði Sigrún Ella Einarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Í ljós hefur komið að meiðsli sem hún varð fyrir í bikarleik gegn Þór/KA snemma í mánuðinum eru alvarleg. Fremra krossband í hné slitnaði auk þess sem innra liðband skaddaðist.
Sigrún, sem spilaði sína fyrstu A-landsleiki síðasta haust, fer í aðgerð vegna meiðslanna í kringum mánaðamótin september/október og að henni lokinni reiknar hún með að vera frá í allt að tíu mánuði. Það fer þó allt eftir því hvort aðgerðin heppnast vel og hvernig endurhæfingin mun ganga, en Sigrún segir helsta markmiðið að geta tekið þátt í einhverjum leikjum undir lok næsta tímabils.
„Já, algjörlega, þó það væri ekki nema einn leikur. Ef þeir verða fleiri þá er það bara plús, þetta eru þannig meiðsli að þau taka mjög langan tíma og ekkert sem maður getur gert í því nema að fylgja fyrirmælum sjúkraþjálfara og gera þær æfingar sem hann leggur fyrir mann,“ segir Sigrún, sem sleit krossband í hinu hnénu árið 2008 og veit því nokkurn veginn hvað bíður hennar í endurhæfingunni.