„Sem betur fer lendum við ekki oft í þessu,“ sagði Magnús Már Jónsson, starfsmaður dómaranefndar KSÍ, í samtali við mbl.is en það dró heldur betur til tíðinda á leik KR og Breiðabliks í Pepsi-deild karla í gærkvöldi.
Þorvaldur Árnason sem dæmdi leikinn fékk boltann í höfuðið í fyrri hálfleik en í leikhléi var hann með óráði og var að lokum fluttur á sjúkrahús. „Það hvarflaði ekki að neinum að huga þyrfti að honum, þar sem hann reis strax á fætur og ekkert virtist ama að eftir atvikið,“ sagði Magnús, en Þorvaldur er allur að koma til en man lítið eftir leiknum sjálfum.
„Hann var á sjúkrahúsi í nótt en var útskrifaður í morgun. Hann er allur að koma til, virðist vera nokkuð vel áttaður þó hann muni lítið eftir leiknum í gær. Hann á að taka því rólega núna í tíu daga,“ sagði Magnús.
Þetta var hins vegar ekki eina áfallið. Smári Stefánsson, sem átti að vera línuvörður á leiknum, meiddist í upphitun og því var fjórði dómari leiksins, Erlendur Eiríksson, á línunni í fyrri hálfleik. Jóhann Gunnar Guðmundsson kom svo á línuna í síðari hálfleik þegar Erlendur tók við flautunni.
„Við hringdum í Jóhann Gunnar korteri fyrir leik og hann drífur sig niður eftir. Erlendur átti að vera á línunni bara í fyrri hálfleik, en svo kemur þetta upp með Þorvald svo hann endaði sem dómari,“ sagði Magnús.
Þá vantaði hins vegar enn fjórða dómara á leikinn. Þóroddur Hjaltalín var í stúkunni sem áhorfandi og hljóp í skarðið sem fjórði dómari, og því náði að manna allar stöðurnar. „En þetta var matröð frá A til Ö,“ sagði Magnús léttur við mbl.is í dag.