„Þetta er erfitt núna. Tölfræðilega getum við náð titlinum en þá þurfum við að treysta á önnur lið og klára okkar,“ sagði Anna Björk Kristjánsdóttir, miðvörður Stjörnunnar, eftir 1:0-tapið gegn Breiðabliki í kvöld sem þýðir að Íslandsmeistaratitillinn blasir við Blikum.
Breiðablik er sjö stigum fyrir ofan Stjörnuna á toppi Pepsideildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.
„Maður er mjög svekktur að hafa tapað þessum leik. Við færum sáttar út ef við hefðum spilað nógu vel en svo var ekki. Við vorum góðar á köflum en svo duttum við niður þess á milli. Við vorum of langt frá mönnum og kláruðum ekki okkar frammi. Þetta er hundfúlt,“ sagði Anna Björk. Breiðablik hélt marki sínu hreinu í ellefta leiknum í röð, og var ekki sérlega líklegt til að fá á sig mark í kvöld:
„Þetta er leikur númer tvö í deildinni þar sem við náum ekki að skora á þær. Þær eru gríðarlega þéttar fyrir og búnar að bæta sig mikið varnarlega. Við náðum ekkert að skapa okkur þannig séð, fyrir utan kannski eitt færi í lokin. Annars voru þetta hálffæri,“ sagði Anna Björk. Stjarnan hefur orðið Íslandsmeistari síðustu tvö ár en þarf nú að öllum líkindum að horfa á eftir meistaratitlinum til Breiðabliks.
„Það hefur alltaf verið mikil vinna á bakvið þessa titla, og ekkert gefið í þessu. Deildin er bara að verða sterkari og sterkari. Við viljum alltaf vinna þennan titil, höfum gert það tvö ár í röð og það er kannski enn erfiðara að gera það þriðja árið í röð. En maður verður að sætta sig við það sem verður og sjá hvernig þetta endar,“ sagði Anna Björk.