„Þetta er æði, ég væri til í að eiga svona daga alla daga,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, hetja Stjörnunnar í bikarúrslitaleiknum gegn Selfossi, þegar mbl.is greip hana tali með Stjörnufánann vafinn utan um sig. Staðan var 1:0 þar til átta mínútur voru eftir en Harpa skoraði sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok.
„Ég viðurkenni að þegar ég hljóp til baka eftir seinna markið þá kiknaði ég aðeins í hnjánum. Ég var orðin nett stressuð þegar við vorum undir og tólf mínútur eftir. Ég var aðeins farin að líta á klukkuna. En við vissum að þetta yrði spurning um síðasta blóðdropann,“ sagði Harpa, sem var að vinna sinn þriðja bikarmeistaratitil á fjórum árum með Stjörnunni.
„Þetta var gríðarlega spennandi leikur, sætur sigur og tvö frábær lið. Þetta var besti leikur sumarsins. Þessi bikar á bara heima í Garðabæ,“ sagði Harpa við mbl.is, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeði.
Sjá: Stjarnan bikarmeistari eftir magnaða endurkomu
Sjá: Ólafur fékk brasilískt vatnsbað í miðju viðtali
Sjá: Svona vill maður sigra bikarleiki
Sjá: „Selfyssingar eru frábærir“