Stjarnan bikarmeistari eftir magnaða endurkomu

Stjarnan endurheimti í dag bikarmeistaratitil sinn í kvennaflokki þegar liðið lagði Selfoss í úrslitaleik á Laugardalsvelli, 2:1. Þessi lið léku einnig til úrslita í fyrra þar sem Stjarnan hafði öruggan sigur, en liðið lenti undir gegn Selfyssingum í dag áður en taflið snerist við. Stjarnan skoraði tvö mörk á sex mínútna kafla undir lokin og tryggði sér titilinn.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti og sótti stíft til að byrja með. Stjörnukonur voru hins vegar fljótar að komast inn í leikinn og bæði lið fengu sín færi, áður en leikurinn róaðist nokkuð um miðbik hálfleiksins. Undir lok hans tóku Selfyssingar hins vegar frumkvæðið án þess þó að skapa sér færi að ráði, en það sama var uppi á teningnum hjá Stjörnunni. Staðan því markalaus í hálfleik.

Stjarnan pressaði stíft í upphafi síðari hálfleiks og fékk meðal annars fjórar hornspyrnur á örstuttum tíma. Vörn Selfyssinga hélt hins vegar haus og liðið komst betur í takt við leikinn aftur þegar leið á. Á 62. mínútu komust Selfyssingar svo yfir. Eva Lind Elíasdóttir komst þá upp vinstri vænginn, sendi fyrir þar sem Donna Kay Henry tók vel á móti boltanum og skilaði honum upp í skeytin. 1:0 fyrir Selfossi.

Stjarnan pressaði stíft eftir markið, en Selfoss var ekki að falla of langt aftur til baka og hélt dampi. Stjörnukonur lögðu allt í sölurnar og uppskáru jöfnunarmark átta mínútum fyrir leikslok. Eftir hornspyrnu náði Selfoss ekki að hreinsa frá, hin brasilíska Poliana skallaði að marki og fór boltinn af Thelmu Björk Einarsdóttur í netið. 1:1 og skammt eftir.

Áfram hélt pressa Stjörnunnar og á 88. mínútu fékk liðið enn eina hornspyrnuna. Guðrún Karítas Sigurðardóttir var í klafsi á teignum í kjölfarið en Selfoss bjargaði á línu áður en Harpa Þorsteinsdóttir náði að koma fæti í boltann og skófla yfir línuna. Staðan 2:1, mögnuð endurkoma Stjörnunnar og tvær mínútur eftir.

Selfoss náði ekki að svara þessu og leikurinn fjaraði að lokum út. Lokatölur 2:1 fyrir Stjörnunni sem tryggði sér sinn þriðja bikarmeistaratitil á fjórum árum. Þess má geta að stemningin á leiknum var mögnuð þar sem áhorfendamet var sett þriðja árið í röð, en alls voru 2.435 manns í stúkunni.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Stjarnan 2:1 Selfoss opna loka
90. mín. Anna María Friðgeirsdóttir (Selfoss) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert