„Það var farið að fara um mann hérna í lokin en gríðarlega mikilvæg þrjú stig sem við nældum okkur í,“ sagði Aron Elís Þrándarson, leikmaður U21 árs landsliðs Íslands, í samtali við mbl.is eftir frækinn 3:2 sigur á Frökkum í undankeppni EM í dag.
„Hérna ætlum við að búa til vígi og vinna alla leikina, hvort sem það er Frakkland eða einhverjir aðrir. Við sögðum fyrir leikinn að við ætluðum að vinna og það þýðir ekkert annað, við lögðum okkur alla fram og hlupum okkur alveg gjörsamlega út. Og það erum við sem stöndum uppi með þrjú stig,“ sagði Aron Elís og sagðist hafa fundið fyrir smá hroka í þeim frönsku.
„Auðvitað verða þeir pirraðir þegar einhverjir strákar frá Íslandi eru að standa í þeim, en þeir eru góðir í fótbolta og maður fann að maður þurfti að hlaupa og leggja mikið á sig. En það var vel þess virði í lokin,“ sagði Aron Elís, sem sjálfur haltraði af velli í seinni hálfleik.
„Ég fékk einhvern krampa, völlurinn þungur og leikformið ekki alveg 100%. En ég verð klár á þriðjudaginn,“ sagði Aron Elís, en þá mætir Ísland liði Norður-Írlands í undankeppninni.
„Þessi sigur eru skýr skilaboð, en það þýðir ekki að vinna Frakka og klúðra svo einhverju á móti Norður-Írum. En við sjáum hvað liðsheildin er sterk hjá okkur og í A-landsliðinu. Það sést bara inni á vellinum,“ sagði Aron Elís Þrándarson í samtali við mbl.is.