Oliver Sigurjónsson, fyrirliði U21 árs landsliðs Íslands, var heldur betur í eldlínunni þegar Ísland vann magnaðan sigur á Frökkum í undankeppni EM á Kópavogsvelli í dag, 3:2.
„Við erum gríðarlega ánægðir með þrjú stig og sérstaklega gaman að vinna Frakka sem eru með þessar stjörnur. En viljinn, grimmdin og hlaupagetan var til staðar og það skóp þennan sigur,“ sagði Oliver, sem sjálfur skoraði tvö mörk. Hann klúðraði þá víti snemma leiks en fylgdi á eftir og skoraði, en brást ekki bogalistin á vítapunktinum fimm mínútum fyrir leikslok.
„Ég er búinn að æfa þetta síðan ég var tíu ára, en þetta er fyrsta vítið sem ég klúðra á ferlinum. Ég var bara rétt að taka vítastimpilinn af fyrra markinu,“ sagði Oliver sposkur og var ekkert smeykur að fara á punktinn öðru sinni.
„Alls ekki, ég er nógu klikkaður til að halda að ég skori alltaf. Og ég skora líka alltaf, svo ég var ekki einu sinni smá stressaður í seinna vítinu,“ sagði Oliver hlæjandi og fannst ekki leiðinlegt að glíma við þá frönsku þegar leið á og pirringurinn fór að aukast.
„Ég elska það. Það er ekkert skemmtilegra en þegar þeir eru farnir að pirra sig, að glíma við einhverja pirraða Frakka. Það er æðislegt að vinna svona á persónuleikanum og ná að þrýsta þessu svolítið í andlitið á þeim," sagði Oliver hinn ánægðasti í samtali við mbl.is.