Gríðarlega stoltur að vera hluti af þessu

Ævar Ingi Jóhannesson.
Ævar Ingi Jóhannesson. Eva Björk Ægisdóttir

„Ég er þreyttur, það má segja það,“ sagði Ævar Ingi Jóhannesson sem átti stórgóðan leik og hætti vart að hlaupa í mögnuðum 3:2 sigri U21 árs landsliðs Íslands á Frökkum í undankeppni EM í dag.

„Frakkarnir eru náttúrulega með hörkulið og með marga leikmenn í sterkum deildum. Við vissum að ef við ætluðum að sigra þá þyrftum við að vinna á okkar styrkleikum, vinnusemi og baráttu. Við gerðum það svo sannarlega,“ sagði Ævar Ingi við mbl.is í leikslok.

Hann kom heldur betur við sögu strax í upphafi leiks, þegar franski markvörðurinn Paul Nardi felldi hann innan teigs og vítaspyrna dæmd auk þess sem sá franski fékk að líta rautt spjald.

„Það var góð tilfinning. Leiðinlegt fyrir hann að fá rautt eftir átta mínútur, en það var mjög góð tilfinning og sérstaklega þegar Oliver kláraði vítið í annarri tilraun,“ sagði Ævar, en varamarkaðurinn Mouez Hassen varði vítaspyrnu fyrirliðans Olivers Sigurjónssonar sem þó fylgdi eftir í annarri tilraun.

Ævar átti einnig þátt í þriðja markinu, sem Oliver skoraði úr vítaspyrnu. Hann átti þá sendingu á Höskuld Gunnlaugsson sem var felldur innan teigs. Í kjölfarið minnkuðu Frakkar hins vegar muninn í 3:2 á síðustu mínútunni og því voru spennuþrungnar mínútur í uppbótartíma.

„Ég viðurkenni að síðustu þrjár mínúturnar voru gríðarlega lengi að líða, en mér fannst  við alveg vera að spila þetta vel í lokin og klaufaskapur að fá á sig annað markið. Ég var alveg stressaður en við náðum að klára þetta,“ sagði Ævar, sem var að spila sinn annan landsleik fyrir U21 árs landsliðið.

„Þetta er frábær hópur og ég er gríðarlega stoltur að vera hluti af þessu. Nú er bara að halda áfram enda mikilvægur leikur framundan. Er það ekki góð klisja?“ sagði Ævar og glotti í samtali við mbl.is.

Sjá: Magnaður íslenskur sigur á Frökkum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert