„Gott að ég tók lyfin í morgun“

Jón Rúnar Halldórsson hvetur sína menn til dáða.
Jón Rúnar Halldórsson hvetur sína menn til dáða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeir voru fáir sem brostu meira en Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í sjöunda sinn í dag með því leggja Fjölnismenn að velli.

„Nú líður mér vel,“ sagði Jón Rúnar við mbl.is skömmu eftir að hafa séð frænda sinn, Davíð Þór Viðarsson, lyfta Íslandsbikarnum á loft í Krikanum.

„Ég var bara í einhverjum són. Þegar ég leit út um gluggann heima fyrir leikinn sá ég regnboga í fullri stærð yfir Krikanum og ef maður vill vera hjátrúarfullur eins og maður vill stundum vera þá trúi ég á þetta en mest trúði ég á strákana mína. Þeir eru komnir með titilinn heim,“ sagði Jón Rúnar, sem hefur verið vakinn og sofinn yfir knattspyrnudeild FH í fjölda ára og hefur þar unnið frábært starf.

Þetta er eins og í skógrækt

Spurður hvernig honum hafi liðið þegar Fjölnir jafnaði metin sagði Jón Rúnar;

„Þá hugsaði ég að það var eins gott að maður tók inn lyfin sín í morgun,“ sagði formaðurinn og skellihló.

Á svipuðum tíma í fyrra var Jón Rúnar vægast sagt brjálaður eftir að Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Kaplakrika í vægast sagt dramatískum leik þar sem Stjarnan fékk vítaspyrnu í uppbótartíma og skoraði sigurmarkið.

„Það voru gríðarleg vonbrigði og allt sem því fylgdi en rótin er svo sterk hjá okkur í FH að í svona augnabliks vonbrigði taka menn þau og læra af þeim. Það er það sem skilur okkur frá sumum öðrum. Árangur liðsins mörg undanfarin ár hefur verið magnaður. Þetta er eins og skógrækt. Þessu var plantað fyrir mörgum, mörgum árum. Við erum flest hér ennþá nema þeir sem eru gengnir en þeir eru líka með okkur. Þetta er yndislegt,“ sagði formaðurinn og það mátti greina sigurtár í augum hans þegar hann ræddi við undirritaðan.

Trúin flytur fjöll

Jón Rúnar er og hefur verið mjög metnaðarfullur fyrir hönd síns félags og draumur hans er að sjá FH-liðið komast í riðlakeppni í Evrópukeppninni. Margir hafa furðað sig á ummælum hans þegar hann hefur sagt þetta en hann heldur fast við það að þetta geti orðið að veruleika.

„Ég vil ekki lifa mínu lífi án þess að hafa stóra drauma. Ef maður er ekki með stóra drauma þá á maður bara að fara að gera eitthvað annað, skokka eða eitthvað. Ég trúi á að FH geti náð að brjóta múrinn og komast í riðlakeppni á Evrópumótunum. Það voru margir sem afskrifuðu karlalandsliðið okkar fyrir fjórum árum en hvar er það statt í dag. Það er engin vitleysa að trúin flytur fjöll og í þessu tilfelli flytur hún Helgafellið.“

Heimir Guðjónsson tolleraður af leikmönnum FH eftir sigurinn í dag.
Heimir Guðjónsson tolleraður af leikmönnum FH eftir sigurinn í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert