„Seinni umferðin alltaf betri hjá FH“

Atli Guðnason og Emil Pálsson skoruðu mörk FH í dag.
Atli Guðnason og Emil Pálsson skoruðu mörk FH í dag. Styrmir Kári

Atli Guðnason var hinn rólegasti, eins og hann á að sér, þegar mbl.is tók hann tali í Kaplakrika, þrátt fyrir að vera nýbúinn að fara höndum um Íslandsbikarinn. 

„Við erum að uppskera eftir ellefu mánaða vinnu og það er bara skemmtilegt,“ sagði Atli en að hans mati spilaði FH-liðið betur í fyrra en þá náði liðið ekki titilinum þrátt fyrir að vera ósigrað fram að síðustu umferð. 

„Mér fannst við betri í fyrra heldur en í sumar. Ekki er hins vegar alltaf spurt að því. Stigin telja. Ég held að við séum með færri stig heldur en í fyrra en samt komnir með titilinn. Það er því skrítið hvernig þetta raðast en við erum auðvitað mjög sáttir.“

Eftir tapið gegn KR í Kaplakrika vann FH sjö deildarliki í röð og nú átta af síðustu níu. Atli sagði ferðina til Aserbaídsjan skömmu eftir KR-leikinn hafa nýst vel. 

„Kannski fóru menn eitthvað inn í sig í þessum leikjum þar sem á móti blés. Seinni umferðin er hins vegar alltaf miklu betri hjá FH en sú fyrri. Eins og það var nú sorglegt að falla úr Evrópukeppninni í Aserbaídsjan að þá þjappaði sá leikur okkur mjög mikið saman. Sú ferð var því mjög góð. Við erum mjög ánægðir með hvernig tímabilið var eftir þann tíma,“ sagði Atli Guðnason sem skoraði fyrra mark FH í 2:1 sigrinum á Fjölni í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert