Erfiður er 20 marka múrinn

Pétur Pétursson.
Pétur Pétursson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Senn líður að því að áttunda sumrinu ljúki með tólf liða úrvalsdeild á Íslandsmóti karla í knattspyrnu. Markamet frá árinu 1978 hefur þó ekki verið slegið og það sem merkilegt er, menn virðast vera enn fjær því en áður þrátt fyrir að leikjum hafi fjölgað um fjóra.

Skagamaðurinn hárprúði, Pétur Pétursson, skoraði 19 mörk fyrir ÍA í 17 leikjum árið 1978 og setti þá nýtt markamet í efstu deild hérlendis. Kórónaði hann raunar flott tímabil með því að skora eina markið í bikarúrslitaleiknum á móti Val. Pétur var aðeins 19 ára gamall og Feyenoord klófesti hann í framhaldinu og þurftu markverðir víða um álfuna að sækja boltann í netið á næstu árum vegna Péturs.

Þremur köppum tókst að jafna markametið en engum hefur tekist að fylla annan tuginn í deildinni á einu sumri. Guðmundur Torfason skoraði 19 fyrir Fram 1986, Þórður Guðjónsson fyrir ÍA 1993 og Tryggvi Guðmundsson fyrir ÍBV 1997. Léku þeir allir 18 leiki og fengu því fleiri mínútur til athafna heldur en Pétur. Bæði Guðmundur og Þórður höfðu jafnað metið í næstsíðustu umferð en tókst ekki að bæta við marki í lokaumferðinni. Hafði Guðmundur til þess alla vega 118 mínútur eftir að hafa skorað tvívegis gegn Víði í Garði í 17. umferð 1986.

Mest 16 mörk skoruð frá 2008

Hin síðari ár er hins vegar fremur lítið að frétta eins og það er orðað. Eðli málsins samkvæmt töldu sparkelskir að markametið gæti varla lifað lengi eftir að leikjum yrði fjölgað úr 18 í 22. Var það gert árið 2008 en síðan þá hafa fjórmenningarnir ekki einu sinni þurft að svitna í lokaumferðinni. Nema náttúrlega Tryggvi í strangasta skilningi á meðan hann var enn að spila.

Nánar er fjallað um lífseiga markametið og rætt við Pétur Pétursson í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert