Stefan til reynslu hjá Norwich

Stefan Alexander Ljubicic í búningi Keflavíkur.
Stefan Alexander Ljubicic í búningi Keflavíkur.

Stefan Alexander Ljubicic, drengjalandsliðsmaður í knattspyrnu úr Keflavík sem er aðeins 15 ára gamall, fer til Englands á morgun og verður til reynslu hjá úrvalsdeildarfélaginu Norwich City næstu vikuna.

Stefan, sem verður 16 ára gamall á mánudaginn, þegar hann mætir á sína fyrstu æfingu hjá Norwich, lék í dag sinn þriðja úrvalsdeildarleik með meistaraflokki Keflavíkur þegar liðið vann Leikni úr Reykjavík, 3:2, í lokaumferð Pepsi-deildarinnar. Hann lék þrjá leiki með drengjalandsliði Íslands fyrr á þessu ári.

Þjálfarar frá Norwich sátu til Stefans í sumar þegar þeir mættu á ReyCup, alþjóðlega mótið hjá Þrótti í Laugardalnum, en þar lék Stefan með 3. flokki Keflavíkur. Hann mun æfa með þremur aldursflokkum hjá Norwich, U21 árs, U18 ára og U16 ára og spila einn leik í næstu viku.

Faðir hans, Zoran Daníel Ljubicic, fyrrverandi leikmaður og síðan þjálfari Keflavíkurliðsins, fer með Stefani til Norwich.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert